top of page
  • Writer's pictureHordur (Hoddi) Agustsson

Íslenskt hátæknifyrirtæki boðar bætta næringu til milljóna jarðarbúa

Íslenska hátæknifyrirtækið VAXA Technologies hefur kynnt til sögunnar verkefni sem hefur möguleika á að breyta lífi milljóna jarðarbúa til hins betra.


Verkefninu, sem ber heitið ACTION Impact Nutrition Program, er ætlað að veita samfélögum með skert aðgengi að fjölbreyttri fæðu aðgang að betri næringu. Verður það gert með því að bæta nauðsynlegum næringarefnum við hefðbundna fæðu, en þau verða í formi Spirulina-blöndu sem unnin er úr íslenskum smáþörungum. Hún er rík af járni, próteinum, amínósýrum og virku, náttúrulegu B12-vítamíni, sem er nauðsynlegt heilanum og taugakerfinu.


Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri VAXA Technologies, segir að um mikilvægt skref sé að ræða í baráttunni við næringarskort á ákveðnum svæðum.


„Verkefnið getur brúað bilið fyrir milljónir jarðarbúa sem líða skort. Samstarfsaðilar okkar eru fjöldi ábyrgra fyrirtækja um allan heim sem láta sig málið varða og vilja taka ákveðin skref í átt að kolefnisneikvæðri framtíð.“

Um verkefnið:

  • Verkefnið er í samvinnu við fjölda óháðra félagasamtaka, stjórnvalda víða um heim og annarra hluthafa.

  • Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga hafa þegar lagt verkefninu lið, ásamt Bandari-skólanum í Tansaníu, þar sem VAXA byrjaði verkefnið í febrúar.

  • Bandari-skólinn er rekinn af samnefndri hjálparstofnun, sem barist hefur gegn fátækt og skertu aðgengi að menntun barna í bænum Mto wa Mbu í Tansaníu. Skólinn býður 160 nemendum upp á morgun- og hádegismat, sem í mörgum tilfellum er eina næringin sem börnin fá yfir daginn.

  • Verkefnið býður upp á næringarlausn sem unnin er úr kolefnisneikvæðum smáþörungum, en þeir eru ræktaðir í hátæknilegri ræktunarstöð fyrirtækisins VAXA við Hellisheiðarvirkjun. Þannig færist matvælaframleiðsla fjær hefðbundnum vinnsluleiðum og tilheyrandi neikvæðum áhrifum landbúnaðar á náttúruauðlindir.

  • VAXA notast við orku og vatn frá Hellisheiðarvirkjun sem annars færi til spillis og framleiðir fæðubótaefni með næringarinnihald sem jafnast á við nautakjöt.





47 views0 comments
bottom of page