top of page
  • Writer's pictureHordur (Hoddi) Agustsson

Íslenskt hátæknifyrirtæki umbyltir matvælaiðnaðinum

Updated: Feb 7Reykjavík 30.janúar 2024.


Íslenska hátæknifyrirtækið VAXA Technologies hefur gert tímamótasamning við matvælaframleiðandann Oterra um nýtingu á hráefnum úr smáþörungarækt VAXA Technologies á Hellisheiði.


Oterra er alþjóðlegur risi í matvælaiðnaði og einn stærsti þjónustuaðili matvælafyrirtækja um allan heim.


Samningur sem brýtur blað

„Samningurinn boðar nýja sýn í matvælaiðnaði,“ segir Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri VAXA Technologies, en smáþörungaræktin fer fram í hátæknilegri ræktunarstöð fyrirtækisins í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun. „Oterra er risastórt fyrirtæki sem þjónustar matvælaframleiðendur um allan heim. Þau hefðu getað farið í samstarf við hvern sem er, en þau völdu okkur og það er okkur mikill heiður.“


Smáþörungar þykja bjóða upp á nýja og spennandi möguleika fyrir matvælaiðnaðinn í heild sinni.


„Einn af þeim þörungum sem við ræktum á Hellisheiði er þeirri náttúru gæddur að hann er blágrænn að lit,“ segir Kristinn, en hingað til hefur aðgengi matvælaframleiðenda að náttúrulegum bláum lit verið takmarkað. „Í fyrsta skipti í sögunni munu stórfyrirtæki í matvælaiðnaði geta notað náttúrulegan bláan lit í allar þær vörur sem þeim hugnast.“


Orku breytt í mat

Kristinn segir að með tilkomu samningsins sé hægt að lækka kolefnisfótspor matvælaiðnaðarins umtalsvert.


.„E2F-kerfið gjörbreytir hugmyndum okkar um matvælaframleiðslu og er fyrsta skrefið í átt að því að veita öllu fólki aðgang að hollri og góðri næringu án þess að ganga á auðlindir jarðarinnar. Með beintengingu okkar við Hellisheiðarvirkjun tekst okkur bókstaflega að breyta orku í matvæli, án þess að ganga á náttúruauðlindir,“ segir Kristinn og vísar þar til E2F-tækninnar (Energy to Food) sem vísindafólk VAXA Technologies hefur hannað og byggt frá grunni.


„Framleiðsla okkar þarf minna en 1% af því landsvæði og vatni sem þekkist í hefðbundinni matvælaframleiðslu og auk þess er sótspor framleiðslunnar neikvætt.“


Björt framtíð með hátækni

Samningur VAXA Technologies og Oterra er þó aðeins byrjunin. Að sögn Kristins munu stór matvælafyrirtæki getað notað smáþörunga í alla sína framleiðslu þegar fram líða stundir.


„Framleiðendur munu ekki bara reiða sig á hefðbundna matvælaframleiðslu, heldur nýta sér hátækni í mun meiri mæli, sem er mikilvægt fyrir umhverfið og baráttuna gegn losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir Kristinn að lokum. „Framtíð matvælaframleiðslu er björt og þessi samningur er stórt skref í átt að henni."


Martin Sonntag, forstjóri Oterra, tekur í sama streng. „Þetta samstarf undirstrikar staðfestu okkar til að skila háþróuðum lausnum fyrir náttúrulega matarliti á heimsmarkaði og skuldbindingu okkar til sjálfbærrar og kolefnishlutlausrar framtíðar,“ segir Martin.


„Nú ýtum við úr vör og endurmótum landslagið fyrir náttúrulega matarliti. Þetta stórmerkilega ferðalag er vitnisburður um gnægð móður jarðar.“

162 views0 comments

Comments


bottom of page